143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef ítrekað sagt úr ræðustóli að í upphafi umræðunnar hafi hæstv. utanríkisráðherra sagt að hér ætti að vera opin og hreinskilin umræða þannig að við gætum upplýst þjóðina og rætt okkar á milli um málið. Til að sú umræða hafi getað átt sér stað er mjög mikilvægt að stjórnarþingmenn hafa farið í andsvör, komið með spurningar og reynt að fá dýpri umræðu.

Ég fagna því mjög en sakna þess gríðarlega að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki taka þátt í umræðunni. Ég er búinn með báðar mínar ræður og á ekki kost á því að fara frekar í umræðu um þetta mál. Það eru þó nokkuð margir eftir á mælendaskrá og það mundi dýpka umræðuna ef við fengjum eins og eina lotu af svörum frá hæstv. utanríkisráðherra þannig að menn gætu fylgt því eftir í þeim ræðum sem eftir eru.

Það sígur á seinni hluta þessarar umræðu þannig að þetta er mikilvægt. Við vitum að henni lýkur ekki með þessari umræðu heldur fer skýrslan í nefnd og kemur síðan aftur inn í þingið. (Forseti hringir.) Þeim mun meira nesti sem við fáum inn í nefndina, þeim mun betra.