143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram er þessi skýrsla ætluð til þess að hjálpa okkur hv. þingmönnum til að meta hvort við eigum að halda áfram aðildarviðræðum eða slíta þeim. Ég verð að viðurkenna að ég upplifi mig svolítið einmana í þessari umræðu.

Ef hæstv. utanríkisráðherra er nálægt vil ég að hann hlýði á orð mín. Ég sakna þeirra sem gjalda mikinn varhuga við því að ganga í Evrópusambandið. Mér finnst ég svolítið ein hérna ásamt mínum félögum. Þeir sem eru hlynntari inngöngu í Evrópusambandið tala fyrir sínu máli, eðlilega, og ég kalla eftir því að þeir þingmenn sem eru í miklum meiri hluta á Alþingi geri grein fyrir því hvað þessi skýrsla segir þeim um það að við ættum ekki að ganga í Evrópusambandið. Ég sakna þess og kalla eftir þeim þingmönnum. Hvar eru þeir?