143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég bið forláts að koma hér aftur en ég gleymdi að nefna áðan það sem mér var efst í huga sem ábending til forseta og stjórnarmeirihlutans um af hverju ætti að fresta þingfundi. Það var nákvæmlega það atriði sem hv. þm. Róbert Marshall nefndi.

Það er náttúrlega full ástæða fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að velta því fyrir sér hvert þeir eru komnir í þeim leiðangri sem forusta þeirra hefur dregið þá út í að elta Kaupfélag Skagfirðinga og Framsóknarflokkinn í forustu fyrir utanríkismálum þjóðarinnar. Við lásum það á forsíðu Fréttablaðsins í morgun, það er hægt að nefna það í framhjáhlaupi, að Kaupfélag Skagfirðinga og Mjólkursamsalan væri einn og sami aðilinn. Við vissum nú fyrir að Kaupfélag Skagfirðinga og Sjálfstæðisflokkurinn væri það sama en það er fróðlegt að sjá að Mjólkursamsalan er orðin hluti af samstæðunni.

Að þessu öllu slepptu þá eru efnisrök fyrir því fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að velta vöngum yfir því (Forseti hringir.) hvert þeir eru komnir því loforðin eru svo skýr. Það er engin leið fyrir flokk að komast undan svona skýrum loforðum. (Forseti hringir.) Þetta hangir ekki bara um hálsinn á hæstv. fjármálaráðherra heldur líka hæstv. innanríkisráðherra, hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra.