143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvað hæstv. ráðherrar mundu segja ef þeir kæmu frá landi þar sem þeir mættu ekki kjósa og þar væri einræði, svo kæmu þeir til lands þar sem þeir mættu góðfúslega kjósa vegna þess að þar væri lýðveldi en síðan kæmi í ljós að þeir mættu ekki kjósa. Þegar á hólminn væri komið væri það bara tekið til baka og sagt: Nei, nei, ykkur er ekki treystandi til að velja stjórnvöld. Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. ráðherrar mundu bregðast við.

Það hafa verið háðar orrustur og stríð vegna lýðræðis í gegnum mannkynssöguna af góðri ástæðu vegna þess að lýðræðið skiptir máli. Þetta eru grundvallarréttindi í lýðræðissamfélagi. Og þegar hæstv. ráðherrar lofa þjóðaratkvæðagreiðslu svo skýrt og ítrekað og svíkja það síðan þá hlýtur að vera lágmarkskrafa að þeir geti talað um það, (Forseti hringir.) að þeir geti setið hér og rætt við okkur um hvernig þeir réttlæta þá hegðun.