143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér er kallað eftir því að ráðherrar komi hingað og gefi einhverjar skýringar á breyttri afstöðu sinni. Eru þeir ekki búnir að skýra frá henni eða hef ég misskilið það eitthvað? (Gripið fram í.) Að þeir hafi metið það þannig eins og staðan er núna að það sé ákveðinn ómöguleiki að gera þetta, að það sé ómögulegt að þessi ríkisstjórn sé í einhverjum aðildarviðræðum um einhverja inngöngu í samband sem þeir vilja ekki fara í? Kannski höfðu þeir einhverjar hugmyndir um það fyrir einu, einu og hálfu eða tveimur árum síðan. Ég segi bara eins og menn segja á útlensku: So what? (SII: Ha?) Er ekki bara afstaða þeirra svona núna? Þurfum við eitthvað vera að vandræðast og kalla til þingsins aftur og gefa einhverjar skýringar? Þá hefðum við ekki gert neitt annað á síðasta kjörtímabili en að biðja um skýringar á breyttri afstöðu þar sem menn höfðu sagt eitthvað annað áður um eitthvert mál. Þetta er mjög undarleg umræða um fundarstjórn, ég segi ekki annað.