143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[22:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil fagna komu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar í umræðuna, það er tímabært. Ég vil að það komi skýrt fram að ég veigra mér ekki við að vera hér í umræðum en það sem ég hef kallað eftir er að ég fái að vita hvernig málið verður meðhöndlað innan þingsins. Það er erfitt að taka þátt í ferli sem maður veit ekki hvernig á að fara fram. Það getur haft áhrif á hvernig maður velur að haga málflutningi sínum ef maður veit til dæmis hvort maður kemst aftur til að tjá sig um málið á síðara stigi.

Varðandi kosningaloforð, varðandi stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, varðandi yfirlýst loforð forustufólks Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga er alvarlegt að hér komi hv. þingmaður (Forseti hringir.) og lýsi því yfir að það sé allt í lagi að fólki segi um það bil hvað sem er og láti kjósa sig út á það til að síðan svíkja það grímulaust.