143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það virðist vera afskaplega langt síðan ég var hér í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra í umræðu um þessa skýrslu. Það er ekki endilega vegna þess að það séu svo margir dagar síðan heldur hefur svo margt breyst. Það var á fimmtudegi eða miðvikudegi og við vorum að ræða skýrslu sem átti að leggja til grundvallar því að taka afstöðu til þess að halda áfram með samninga við Evrópusambandið. Svo allt í einu á föstudegi kemur gerræðistillaga hæstv. utanríkisráðherra um að það eigi einfaldlega að slíta viðræðum „hviss bang“.

Ég hafði hugsað mér að reyna að halda mig við dagskrárefnið, þ.e. skýrsluna, en ég neita því ekki að það er svolítið erfitt. En eitt af því sem ég var í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra um, var hvort ekki ætti að bíða eftir skýrslu frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands áður en ákvörðunin yrði tekin. Ráðherrann tók því ekki ólíklega en hann sagði svo sem ekki já, ég segi það hreint eins og er. En hann staðfesti það að minnsta kosti að hann dæmdi þá skýrslu ekki úr leik, líkt og hæstv. utanríkisráðherra hafði gert. Hann hélt að það yrði kannski eitthvað í þeirri skýrslu sem gæti komið að notum, ég skildi hann þannig, þegar framhaldið væri ákveðið.

Eitt af því sem væntanlega verður fjallað um í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands er hagsmunamat og þá ekki hagsmunamat í krónum og aurum, um að við fáum svona mikið í styrki og við þurfum að borga svona mikið, ekki svona debet- og kredit-dálkar. Þar verður væntanlega fjallað um t.d. starfsumhverfi fyrirtækja sem við erum öll sammála um, hvar í flokki sem við stöndum, að eru nauðsynleg til að við getum lifað áfram góðu lífi á Íslandi. Ekkert er fjallað um það í þeirri skýrslu sem við ræðum núna, en þetta hlýtur að vera hluti af því hvort við skellum í lás og nennum ekki að hugsa um þetta lengur eða hvort við höldum áfram samningaviðræðunum eða jafnvel setjum þær kannski á ís í einhvern tíma. Eitt af því sem hefur gerst undanfarna daga eftir að gerræðistillagan leit dagsins ljós er að nú hafa talað forsvarsmenn fyrirtækja, aðallega karlar held ég en einnig konur, t.d. formaður Samtaka iðnaðarins, og forstjórar CCP, Marels, Össurar, þessara fyrirtækja sem við montum okkur alltaf af og viljum eiga fleiri slík fyrirtæki, það væri óskastaðan. Allt þetta fólk hefur lýst verulegum áhyggjum sínum af því hvernig gangi að reka fyrirtækin ef við klárum ekki samningana og skellum svona í lás.

Mér finnst nauðsynlegt að beðið verði eftir þessari skýrslu líka en nú veit ég svo sem ekki hvað það hefur upp á sig að segja þetta hér vegna því að eftir því sem við vitum best hefur ríkisstjórnin öll þegar tekið ákvörðun um þetta og þeim kemur ekkert við hverju þeir lofa og þeim kemur ekkert við hvað fólki úti á Austurvelli finnst og þeim kemur ekkert við hvað okkur finnst. Kannski er þetta allt saman bara eitt lélegt leikrit sem við erum í hérna.