143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[22:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú veit ég að hv. þingmaður þekkir vel til í Evrópu og Brussel, hefur unnið þar. Við sem höfum kynnt okkur þessa skýrslu sjáum að úttektinni er skipt í fjóra þætti og einn þáttur heitir: Staða og horfur í efnahagsmálum Evrópusambandsins.

Nú langar mig til að inna hv. þingmann eftir því hvernig hún meti stöðuna í efnahagsmálum í Evrópu í framtíðinni og hvernig hún sjái þau mál þróast, hvort það sé efnahagslegur stöðugleiki og hvernig staða evrunnar er milli þeirra mörgu ólíku ríkja sem eru innan Evrópusambandsins og líka varðandi atvinnuleysið.

Nú hefur komið í ljós að um 25 millj. manns eru atvinnulausar í Evrópu og 11 millj. manns hafa verið atvinnulausar í meira en eitt ár. Mig langar að fá að heyra í hv. þingmanni hvernig hann metur þetta í samhengi við efnahagsmál okkar og það sem við erum að glíma við hér heima á Íslandi, hvernig þessar horfur eru miðað við úttektina í þessari skýrslu í löndum Evrópusambandsins; hvort hún sjái þar ljós í myrkrinu fyrir okkur Íslendinga og hvað við gætum hugsanlega haft út úr því að sameinast þessu efnahagsbandalagi.