143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[22:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Evrópusambandið hefur ekki farið varhluta af þeim erfiðleikum sem verið hafa í efnahagslífi í eiginlega flestum ríkjum heims á undanförnum árum. Lengi vildu menn að hluta til kenna því um að evran hefði mistekist eða að evran hefði ekki staðist þær væntingar sem menn hefðu gert til hennar. Hins vegar segja þeir sem gerst þekkja til þessara mála núna að þetta sé ekki gjaldeyriskreppa, að kreppan í Evrópu sé ekki endilega út af gjaldmiðlinum. Evrunni er ekki spáð þeim miklu óförum núna sem margir spáðu henni fyrir ári eða svo. Hitt er náttúrlega alveg ljóst, eins og áður hefur komið fram í umræðunni, að þetta er samband 28 ólíkra ríkja og efnahagsstjórn í þeim ríkjum er misjafnlega skynsamleg og sumum gengur verr en öðrum. Atvinnuleysi er miklu meira í suðurríkjunum en í norðurríkjunum en það hefur svo sem alltaf verið þannig.

Ég á von á því að efnahagslíf í heiminum svona almennt og líka í Evrópusambandinu muni rétta úr kútnum. Ég er ekki í neinum vafa um að það væri betra fyrir íslenskt efnahagslíf að vera hluti af stærra gjaldmiðilssvæði en fyrir 320 þús. manns og þá held ég að evran sé í raun það eina sem til greina komi.