143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:44]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við ESB. Ég vil spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvað henni finnist um þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni um umsóknarferlið og aðferðafræði þess. Á bls. 25 í Viðauka I: Aðildarumsókn Íslands og stækkunarstefna ESB stendur, með leyfi forseta:

„Þær breytingar á aðildarferlinu sem urðu með umsókn Mið- og Austur-Evrópuríkjanna hafa sætt gagnrýni. Með þeim hafi Evrópusambandið fengið yfirhöndina í aðildarviðræðum sem sé þróun sem hófst með fyrstu stækkuninni. Ríkjunum sé ekki eingöngu gert að samþykkja löggjöf sambandsins á fyrstu stigum heldur einnig að laga sig að stefnu sambandsins og hrinda löggjöf þess í framkvæmd fyrir gerð aðildarsamnings og gildistöku hans.“

Er hv. þingmaður sammála þeirri gagnrýni á stækkunarferlið sem fram kemur í skýrslunni? Var henni kunnugt um þessa veiku stöðu umsóknarríkisins þegar hún greiddi atkvæði með umsókninni og þeirri kröfu Evrópusambandsins að umsóknarríkið hrindi í framkvæmd löggjöf sambandsins áður en þjóðin fengi að taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hefði ekki verið betra að spyrja þjóðina álits áður en hafist er handa við að laga Ísland að Evrópusambandinu?