143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki áttað mig á því að þarna væri gagnrýni á Evrópusambandið, ég held að þetta sé einfaldlega lýsing. Þó að hv. þingmanni líki þetta kannski ekki get ég ekki séð að þetta sé gagnrýni. Þetta er bara lýsing á ástandi. Við verðum líka að skilja af hverju þessar breyttu aðferðir við samninga um aðild að Evrópusambandinu gerðust. Það var af því að þau ríki sem sóttu um voru svo allt öðruvísi, þau voru svo skammt á veg komin efnahagslega og ekki síst lýðræðislega. Þess vegna þurfti að ganga úr skugga um að þau uppfylltu þær kröfur sem gerðar eru til lýðræðis, mannréttinda og ýmissa smámuna í ríkjunum áður en þau gengju í Evrópusambandið.

Þau þurftu að breyta sinni löggjöf til þess að uppfylla það, já. Já, mér var fullkunnugt um að þetta hefði breyst. (Gripið fram í: Áður en …?) Ekki áður en þetta var tekið upp heldur áður en ég greiddi atkvæði, ef það er það sem málið snýst um. Já, mér var fullkunnugt um það.

Þess vegna hélt ég að þetta tæki allt skemmri tíma. Ég hélt hins vegar að af því að við erum í EES þyrfti ekki að fara í alla þá rýnivinnu sem þau hins vegar sögðu að við þyrftum að fara í. Ég hélt það. Þess vegna tók fyrsti fasinn, ef ég má nota það orð, lengri tíma en ég hafði búist við. Þetta vissi ég sem sagt allt.