143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[23:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Samskiptasaga Íslands og Evrópusambandsins er ekki ný af nálinni. Þegar fólk horfir til þessarar sögu staðnæmist það á mismunandi tímum og horfir til kaflaskila. Það er eðlilegt að menn horfi fyrst og fremst til þess sem er að gerast núna og ræði þá tillögu sem ríkisstjórnin hefur sett fram um að aðildarumsókn að ESB verði dregin til baka og hún ekki tekin upp að nýju nema áður hafi farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla.

Aðrir horfa lengra aftur í tímann, sumir staðnæmast við júlímánuð árið 2009 þegar þáverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti ákvað að senda inn aðildarumsókn til Brussel og svo er enn sá hópur sem horfir lengra aftur í tímann til að reyna að skilja hvers vegna við stöndum þar sem við erum nú. Ég er í þeim hópi.

Mitt pólitíska minni tekur til nær hálfrar aldar. Ég var kominn til pólitísks vits, vil ég kalla, um 1970, þá rúmlega tvítugur maður, og allar götur frá þeim tíma hefur Evrópuumræða í einu eða öðru formi verið brennandi mál á Íslandi. Árið 1970 gerðust Íslendingar aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Fríverslunarsamtökin höfðu verið stofnuð áratug áður, árið 1960, sem eins konar valkostur við þá nýtilkomið Evrópubandalag sem var stofnað með Rómarsáttmálanum árið 1957. Við áttum aðild að þessum Fríverslunarsamtökum EFTA ásamt mörgum ríkjum sem sum hver eru enn innan EFTA, önnur orðin aðildarríki í Evrópusambandinu.

Áður en Íslendingar gengu í EFTA höfðu átt sér stað hér á landi miklar og heitar umræður um hvað gera skyldi. Margt sem nú má kenna í umræðunni á þræði aftur til þessa tíma. Sumir lögðu höfuðáherslu á mikilvægi viðskiptafrelsis og að það sem öllu máli skipti fyrir Íslendinga væri að hafa viðskiptin sem allra hömluminnst. Aðrir horfðu til annarra sjónarmiða, að verja innlenda atvinnuhagsmuni, húsgagnaiðnaðinn, íslenskar skipasmíðar, landbúnað og framleiðslu almennt í landinu. Viðskiptasjónarmiðin urðu heldur ofan á við inngöngu okkar í Fríverslunarsamtökin EFTA. En þessir þættir hafa síðan birst okkur í umræðunni um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu á undanförnum árum.

Ástæðan fyrir því að ég segi að það sé rangt að staðnæmast í umræðunni nokkur missiri aftur í tímann er sú að svo lengi sem ég man eftir hefur þessi umræða hvílt mjög þungt á þjóðinni og skoðanir verið skiptar. Ég held að við getum öll, ef við viljum vera sanngjörn, horft til þess að margt sem sagt var í aðdragandanum að innkomu okkar í Fríverslunarsamtökin — á báða bóga — hafi stuðst við ágæt rök. Það er staðreynd að innganga okkar í EFTA á sínum tíma varð til þess að veikja innlenda framleiðslu. Það er líka rétt að aðkoma okkar að Fríverslunarsamtökunum varð til þess að styrkja okkur í viðskiptum við aðrar þjóðir. Þetta er allt rétt.

Stóru kaflaskilin sem ég horfi til voru aðkoma okkar að EES. Þegar ég var formaður BSRB árið 1988 var þessi umræða mjög heit innan samtakanna, ekki aðeins meðal opinberra starfsmanna í BSRB og BHM heldur líka í Alþýðusambandi Íslands og í öðrum samtökum, Neytendasamtökunum, Bændasamtökunum og öðrum samtökum.

Sú ríkisstjórn sem á endanum samdi um EES-samninginn komst að þeirri niðurstöðu að þjóðin væri ekki nógu vel að sér til að taka ákvörðun í málinu. Það voru Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn sem höfnuðu því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið — illu heilli. Það var líka illu heilli að við ákváðum ekki, og ég beini þeim gagnrýniorðum að sjálfum mér líka, að efna til atkvæðagreiðslu vorið 2009 áður en við settum inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Samfylkingin var því andvíg að fara þá lýðræðislegu leið, því miður, illu heilli. Það hefði betur verið gert og ég held að flestir viðurkenni það í dag, hvort sem þeir eru innan Samfylkingarinnar eða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það á nefnilega að virða lýðræðið, það skiptir máli.

Virðing okkar fyrir lýðræðinu getur birst með ýmsum hætti. Ef við ætlum að taka lýðræðislega ákvörðun skiptir máli að spurt sé á réttum forsendum. Þess vegna gagnrýni ég hugmyndir um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er: Viltu eða viltu ekki halda viðræðunum áfram? vegna þess að það gefur þjóðinni ranga mynd.

Það sem við höfum lært af umsóknarferlinu frá því í júlímánuði 2009 er að það sem við töldum mörg hver að yrði umræða um helstu álitamál sem uppi voru varð ferli sem fól í sér aðlögun að stjórnkerfi Evrópusambandsins. Við þekkjum það öll sem fylgdumst með þessari umræðu úr nálægð eða fjarlægð hvaða áhrif það hafði þegar Evrópusambandið fór að veita hina svokölluðu IPA-styrki, Pre-Accession, aðlögunarstyrki sem umsóknarríkjum eru gjarnan veittir. Margir halda að þessi styrkir séu ókeypis. Þeir eru að sjálfsögðu greiddir af skattgreiðendum í Evrópu og af okkur ef við fáum aðild að bandalaginu. Það mundi að sjálfsögðu gerast líka.

Þetta er það sem síðan einkenndi og hefur einkennt undanfarna mánuði og undanfarin missiri, menn hafa tekið hvert sviðið á fætur öðru innan stjórnsýslunnar og lagað að stjórnsýslu Evrópusambandsins. Þess vegna er óheiðarlegt annað en að spyrja þjóðina hvort hún vilji gerast aðili að ESB og þar með halda til streitu þeirri umsókn sem sett var fram í júlímánuði árið 2009. Annað er óheiðarlegt. Og ég spyr hvort það sé siðlegt af þjóð sem mælist í meiri hluta andvíg inngöngu í Evrópusambandið að sitja við samningaborð með ærnum tilkostnaði fyrir okkar þjóð og fyrir Evrópusambandið líka bara til að fiska, sjá hvað hugsanlega kemur upp úr pokanum.

Mér finnst það ekki siðlegt. Við eigum að koma hreint fram. Ef við viljum gerast aðilar að Evrópusambandinu, ef það er meirihlutavilji með þjóðinni að gerast aðili að Evrópusambandinu, eigum við að ganga til slíkra viðræðna á þeim forsendum en ekki þeim að þarna eigi sér stað fyrst og fremst samningaviðræður. Þetta er annað og miklu meira. Við héldum það, ég hélt það, en við komumst að raun um annað. Í þessu ferli komumst við að raun um annað, við eigum að horfast í augu við það, taka afleiðingunum og horfast í augu við reynsluna.

Þess vegna er ég því fylgjandi að þjóðin verði spurð: Vilt þú, kæri landsmaður, kæri kjósandi, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og að við höldum umsókn okkar til streitu á þeirri forsendu? Þannig á að spyrja. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gerum grein fyrir þessu í greinargerð með þeirri tillögu sem við höfum lagt fyrir þingið. Hún er eins konar sáttargjörð. Í henni segir: Stöðvum viðræðurnar. Spyrjum þjóðina á þessu kjörtímabili hvað hún vilji gera.

Við teflum ekki fram einni tillögu um hvernig eigi að orða spurninguna, enda eru mismunandi sjónarmið innan okkar raða um hvernig það eigi að vera. Ég er því fylgjandi að spurt verði á þeim forsendum sem ég hef gert grein fyrir.

Við verðum líka að horfast í augu við það hvort það er gott fyrir Ísland að ganga að viðræðuborði á grundvelli óheilinda sem byggja á því að meiri hluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu í ESB, ríkisstjórnin vill ekki sjá það og meiri hluti Alþingis er því andvígur. Er þetta ekki eitthvað sem við þurfum að horfast í augu við?

Það var oft sagt við mig sem ráðherra á fundum á erlendri grundu, hvíslað yfir málsverði, að menn væru vinveittir Íslendingum og vildu hjálpa okkur sem allra best. Í hverju? spurði ég. Í að komast inn í ESB. Ég hef engan áhuga á að fara þangað, sagði ég. Ha, engan áhuga á að fara þangað? En eruð þið ekki að sækja um aðild? Jú.

Eru þetta ekki einhverjar mótsagnir sem við verðum að horfast í augu við? Ég er ansi hræddur um að við verðum að gera það. En við eigum líka að virða hinn lýðræðislega rétt þjóðarinnar. Ég trúði því og við trúðum því að með því að ganga til viðræðna við ESB í upphafi síðasta kjörtímabils værum við að leysa hnút sem hefur verið fastreyrður í þrjá eða fjóra áratugi. Við gerðum það af góðum huga og við töldum að þessar viðræður yrðu til lykta leiddar á hálfu öðru ári, kannski tveimur árum, þeir svartsýnustu töluðu um þrjú ár.

Síðan kom á daginn að reyndin var öll önnur. ESB ætlaði ekkert að semja við okkur eða ganga frá neinum endum á meðan meiri hluti þjóðarinnar væri því andvígur samkvæmt skoðanakönnunum að ganga inn. ESB ætlaði ekkert að láta lítilsvirða sig með þeim hætti sem gerðist í Noregi. Norðmenn sátu við samningaborð í tvö ár, 1992–1994. Í nóvember árið 1994, þegar öll Evrópusambandsríkin höfðu samþykkt samkomulagið sem gert hafði verið og þegar norska ríkisstjórnin hafði samþykkt það, felldi þjóðin samninginn.

Mér finnst að við öll, líka þjóðin og þeir sem krefjast atkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram, (Forseti hringir.) verðum að horfast í augu við þessar staðreyndir. Ef menn vilja ganga í ESB eiga menn að segja það (Forseti hringir.) og berjast fyrir því. Og ég styð það að atkvæði verði greidd um slíka spurningu.