143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir bón starfandi þingflokksformanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur. Það eru 10 manns á mælendaskrá um þá skýrslu sem við ræðum hér í skugga þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég hef ítrekað óskað eftir upplýsingum um hvers konar meðferð þessi skýrsla fái hér í þinginu. Ítrekað hefur verið spurt eftir því hver asinn sé að leggja hér til slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið þvert á yfirlýsingar um að þessi skýrsla, sem enn er í umræðu, ætti að vera grundvöllur áframhaldandi ákvarðanatöku. Ég tel að meðan þessi óvissa er uppi um þessi mál sé ekki ástæða til að funda lengur hér í kvöld.