143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað aftur til að ræða um fundarstjórn hæstv. forseta vegna þess að búið er að skipta um forseta í stólnum. Ég vakti athygli á því að ágætt væri að fá að vita — hann þekkir mína hagi — hvort ég á að fara að panta gistingu á höfuðborgarsvæðinu og vera hér fram til morguns. Í sjálfu sér er ekkert sem hindrar það, ég er alveg tilbúinn í það en ágætt væri að fá að vita það, svo ég viti þá að ég verð í vinnunni í nótt. En ég ætla um leið að biðja hæstv. forseta um leyfi fyrir mig í allsherjar- og menntamálanefnd í fyrramálið, svo ég þurfi ekki að vera þar kl. 8.30 í fyrramálið ef við eigum að vera í umræðu hér á sama tíma.

Það er enginn að biðjast undan því að vinna en það er ágætt að fá að vita hvert prógrammið er. Ætla menn að fara af stað með þau 25 mál sem hér eru? Ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti hafi þennan lista, hann hefur verið lagður hér á borðið hjá hinum og þessum aðilum í ræðustólnum, ég get kannski skilið hann eftir þannig að menn viti það, en ég held að það sé afar mikilvægt að fá svör við þessu. Við skulum ekki vera í þessum leik hér fram eftir nóttu en það er ágætt að vita hvað stendur til. Ef forseti ætlar að klára mælendaskrána þá skulum við bara gera það, klára hana í lotu. En ef á að fara að tala fyrir nýjum málum í einhvern tíma, langt inn í nóttina, væri ágætt að fá að vita það.