143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta dugar ekki alveg. Að sjá hvernig umræðunni vindur fram, klukkan er að ganga eitt. Það dugar ekki að sjá hvernig umræðunni vindur fram. Við höfum verið að ræða þetta mál meira og minna í allan dag. Ég ætla bara að biðja virðulegan forseta að standa með þinginu og okkur þingmönnum í því að sýna okkur þá virðingu að gera okkur grein fyrir hvað er í bígerð, hvað til stendur.

Hvernig sér forseti fyrir sér að þingfundur haldi áfram? Verður mælt fyrir nýjum málum í skjóli nætur? Er það virkilega það sem stendur til, af því að hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt það í fjölmiðlum að hann sé tilbúinn að mæla fyrir máli í nótt? Er það virkilega svo að forseti telji það sæmandi að mælt verði fyrir þeirri miklu átakatillögu um miðja nótt? Ég bendi hæstv. forseta á að nefndarfundir eru í fyrramálið og menn þurfa að skipuleggja vinnu sína o.s.frv. Það er ekki boðlegt að tala eitthvað um það að sjá til hvernig umræðunni vindur fram. Henni hefur undið ærlega fram í allan dag.