143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil nú á þessari stundu, þegar við erum í umræðu um skýrslu, fá úr því skorið hvort það sé í raun og veru svo að hæstv. forseti íhugi að hefja umræðu um næsta dagskrármál, ljúki umræðu um skýrsluna í nótt. Við erum að tala um stjórnartillögu. Það er tillaga til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki. (Gripið fram í.)

Hér hefur verið afhjúpað með mjög niðurlægjandi hætti, og ekki síst er sýnt fram á alvarleika þess, að annar stjórnarflokkanna er að þverbrjóta loforð sín við kjósendur. Svo ýjar hæstv. forseti að því að það kunni að vera að það fari fram hér í skjóli nætur að sá verknaður verði nánast fullkomnaður. Ég trúi því ekki, hæstv. forseti.