143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[00:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi svör. Ég skil það samt þannig að hann hafi mjög mikla trú á því að með upptöku annars gjaldmiðils og annars launaumhverfis verði flest launafólk betur komið. Eins og hann segir líka eru ákveðnar stéttir sem eru því ekki sammála eða eiga töluvert mikið í húfi og sagt hefur verið að ríkisstjórnin sé svolítið að hugsa fyrir þeirra hönd en ekki fyrir hönd sprotafyrirtækjanna og annarra sem kalla eftir því að látið verði reyna á þetta.

Ég tek undir að það er margt í húfi varðandi efnahagsmálin okkar og mér finnst óábyrgt að taka þá afstöðu núna að vilja slíta viðræðunum. Mér finnst það ekki virðingarvert við umræðuna að tillaga skuli hafa verið lögð fram um að slíta viðræðunum. Ég hef spurt áður og ég spyr hv. þingmann líka: Hvað heldur þingmaðurinn að það sé sem veldur því að ríkisstjórnin virðist ekki þora að leggja málið í dóm þjóðarinnar, ef hún telur sig hafa þann stuðning á bakinu sem fleytti henni inn í meiri hluta í ríkisstjórn með 51%? Hvað er það sem þar býr að baki, sem veldur því að hún þorir ekki að setja það í dóm þjóðarinnar hvort halda eigi viðræðunum áfram eða ekki.

Eins og við höfum rifjað hér upp tók síðasta ríkisstjórn við þjóðaratkvæðagreiðslu, við niðurstöðu sem hún var ekkert sérstaklega ánægð með en fékk til þess þar til bært fólk til að vinna úr því og ná fram betri niðurstöðu. Ríkisstjórnin hefur sagt hér að hún treysti sér ekki til þess (Forseti hringir.) sökum þess að hvorugur flokkurinn vill ganga í Evrópusambandið. En gætu þeir fengið einhverja til að semja fyrir sína hönd sem gæti talist óvilhallur?