143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mínar kenningar um það hvers vegna ríkisstjórnin hefur kappkostað að koma í veg fyrir að við gætum haldið áfram með þetta ferli. Ég held að hún óttist það framar öðru að fá svörin. Það er mjög athyglisvert að áróður ríkisstjórnarflokkanna, sem nú er orðinn algerlega sá sami og málflutningur Heimssýnar, gengur mikið út á það að gefa sér staðreyndir um niðurstöður samninga. Ljóst er að þeir sem þannig tala mega ekki til þess hugsa að fá að vita hvað raunverulega kemur út úr samningunum því að það gæti reynst betra. Það er margt sem bendir til að niðurstöðurnar gætu verið betri en þær dómsdagsspár sem við höfum heyrt frá Heimssýnarliðum og ríkisstjórnarforkólfum.

Til dæmis er ljóst af þeirri ágætu skýrslu sem við erum að ræða núna að það er ekkert sérstakt að óttast í landbúnaðinum. Stór hluti af málflutningi Heimssýnarmanna og andstæðinga aðildar innan ríkisstjórnarflokkanna á undanförnum missirum hefur akkúrat snúist um heimsendaspár vegna íslensks landbúnaðar.

Mjög athyglisvert er að þeir flokkar fengu, eins og hv. þingmaður bendir á, 51% fylgi í síðustu kosningum. Það fengu þeir einungis vegna þess að þeir nefndu hvergi hugmyndina um að slíta aðildarviðræðum. Ég skora á einhverja úr ríkisstjórnarflokkunum að benda mér á dæmi um að talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafi sagt á einum einasta kosningafundi að til greina kæmi að slíta aðildarviðræðunum. Ég mana þá. Hæstv. forsætisráðherra sagði ítrekað: Það er hægt að gera eins og í tilviki Möltu. Hvað gerði Malta? Hún dró ekkert til baka, hún hafði bara hlutina í frosti eitt kjörtímabil.

Allir vita nú um loforð sjálfstæðisráðherranna sem eru þeim til ævarandi háðungar og eru núna búnir að gera út af við stjórnmálaferil allrar forustusveitar Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg ljóst að þeir flokkar töldu sér ekki fært að heyja kosningabaráttu með því að sýna sitt rétta andlit. (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn gerði þetta tvennar kosningar í röð. Hann sagði ósatt fyrir (Forseti hringir.) kosningarnar 2009, sagði þá tiltekna hluti sem hann hafði engan áhuga á (Forseti hringir.) að standa við og svo skipti hann aftur um (Forseti hringir.) Evrópustefnu fyrir kosningarnar 2013 og sagði eitthvað sem hann ætlaði síðan ekki að standa við.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því enn til þingmanna að virða tímamörk.)