143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ágæta ræðu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort upplifun hans af stöðu málsins sem við ræðum hér sé sambærileg minni, þ.e. við séum á svolitlum villigötum. Ég kveinka mér ekki undan því að ræða málið inn í nóttina en mér finnst mjög mikilvægt að það sé á grunni þess sem er að gerast í því hverju sinni. Nýjustu tíðindin sem hafa gerst í þessari umræðu allri snúast um þrjá hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem voru í fréttum í kvöld. Þar var rifjuð upp afstaða þeirra fyrir tæpu ári síðan í aðdraganda síðustu kosninga og rætt m.a. við hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson sem sagði að ef staðreyndir breyttust þá breyttust skoðanir hans. Þegar hann var spurður að því hvaða staðreyndir það væru sem hefðu breyst sagði hann að enginn hefði séð það fyrir að í ríkisstjórn færu tveir flokkar sem væru eindregið á móti því að ganga í Evrópusambandið. Samt er það svo að á sama tíma og myndband af þessari frétt fer eins og eldur í sinu um samfélagsmiðlana er þar líka að finna viðtalsbút og frétt þar sem þeir sitja hlið við hlið, hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, og tala um atkvæðagreiðsluna sem á að fara fram á kjörtímabilinu.

Þetta finnst mér mikilvægt að ræða. Þetta finnst mér mikilvægt að fara yfir. Mig langar til að spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason um þetta ósamræmi og þau greinilega holu rök í málflutningi hæstv. menntamálaráðherra sem því miður er ekki hér í kvöld, enda kannski önnum kafinn við að reyna að hugsa sig út úr þeirri stöðu sem hann er kominn í.