143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er gott að hann minntist á sjávarútveginn því að ég ætla að fara djúpt í umræðu um skýrsluna, eins og óskað hefur verið eftir hér utan úr sal. Á bls. 138 er rætt um varanlegar undanþágur Íslendinga og ætla ég, með leyfi forseta, að vitna þar í samantekt skýrsluhöfunda:

„Ólíklegt er að hægt sé að sækja um varanlega undanþágu frá takmörkunum varðandi fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hugsanlega væri hægt að fá tímabundnar undanþágur til aðlögunar, t.d. með því að setja skilyrði um búsetu. Þá leið hafa t.d. Danir farið. Einnig má telja óvíst að hægt verði að setja skilyrði um hömlur á framsal aflaheimilda til annarra en Íslendinga eða íslenskra fyrirtækja. Þá er ljóst að samningsumboð við lönd utan Evrópusambandsins, t.d. vegna veiða úr deili- og flökkustofnum, verður á hendi Evrópusambandsins en ekki einstakra ríkja. Leitað er samráðs við aðildarlöndin í slíkum tilvikum.“

Svo segir:

„Þá er ljóst að ekki væri hægt að fá undanþágu frá ákvæðinu um að heildarafli í helstu veiðum skuli ákvarðaður formlega á vettvangi Evrópusambandsins, þrátt fyrir að lögsaga Íslands yrði skilgreint sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði.“

Þetta er það sem brennur á þjóðinni, að minnsta kosti hluta hennar, að fá svör við slíku. Þó að við séum ekki búin að ljúka þessum kafla í viðræðum okkar við Evrópusambandið, hvað segir hv. þingmaður um þessar fullyrðingar sem koma fram í skýrslunni, og ég bið hann að vera algjörlega heiðarlegan eins og hann er nú alla jafna. Fáum við eitthvað meira en aðrir upp úr þessum hatti?