143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:57]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu, eins og mér finnst ræður hans gjarnan vera, og upplýsandi. Rétt er það að hann er líklega einn af þeim sem þekkir einna best til þessa máls.

Það sem ég hef verið að lesa um og hlusta á þá finnst manni Evrópusambandið vera svolítið merkilegt pólitískt fyrirbæri. Við vitum auðvitað eins og hér hefur komið fram að það hefur sína kosti og galla. Við höfum verið að reyna að ræða þessa stóru mynd og skipst á skoðunum um hvort skýrslan leysi það mál þannig að við getum tekið afstöðu að öllu leyti til málsins út frá henni eða hvort leiða þurfti fram fleiri skoðanir.

Ég hef svo sem aðeins verið að velta fyrir mér þessu sem kemur fram í skýrslunni og langar að spyrja hv. þingmann út í. Fram kemur á bls. 34 um heimildir Svía og Finna, þ.e. að veita langtímainnanlandsstuðning til að tryggja að landbúnaður verði áfram stundaður, og er þá verið að tala um landbúnaðarsvæði norðan 62. breiddargráðu. Mér hefur stundum fundist gæta misskilnings um það að Evrópusambandið styrkti landbúnaðinn, þ.e. að styrkir kæmu þaðan en ekki að þetta væri heimild. Er það ekki rétt skilið hjá mér, af því að ég treysti því að hv. þingmaður viti það betur? Þetta er í rauninni einungis heimild til þess að þjóðir, þ.e. Finnar og Svíar, hafi heimildir til þess að veita stuðning umfram það sem öðrum ríkjum er heimilt (Forseti hringir.) í sambandinu.