143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svo er, og í samningsafstöðu sem liggur fyrir, að vísu í ágreiningi við bændur út af einu tilteknu atriði aðallega, þá er akkúrat farið fram á og krafist af Íslands hálfu að við höfum þessar sömu heimildir til að greiða sjálf umfram það sem mönnum er heimilt. Það er til þess að styðja við landbúnað á harðbýlum svæðum.

Hv. þingmaður gerði það líka að umræðuefni að þarna væri um að ræða sérlausn, og þetta er nú eitt af því sem hefur verið tekist hvað mest á um hér, af því að hún er ótímasett. Menn hafa stundum velt fyrir sér: Hvers eðlis eru sérlausnir? Þær eru tímasettar eða ótímasettar. Í þessu tilviki held ég að formaður Samfylkingarinnar hafi átt snjallasta svarið þegar hann var spurður: Hversu lengi mun hún vara? Á meðan það er kalt í Finnlandi. Það er svarið. Á meðan það er einsleitur gróður, stuttur vaxtartími og lágt hitastig, á meðan landbúnaðurinn býr við jafn hrjóstugar aðstæður í Finnlandi og hann gerir í dag þá mun þetta vara. Og þegar ég hef snúið þessu upp á sjávarútveginn og sagt: Við munum gera kröfu um íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði umhverfis Ísland, þ.e. norðan 62. breiddargráðu, í krafti þess að sjávarútvegur er svo mikilvægur og reyndar lífsnauðsynlegur fyrir okkur Íslendinga. Þá spyrja menn: Hversu lengi mun það vara? Svar mitt hefur verið: Við förum fram á að það vari jafn lengi og þetta ástand sem sérlausnin á að svara er við lýði. Ég hef stundum sagt þúsund ár, að það dugi mér, en ég hugsa að það verði miklu, miklu lengur.

Ég er svo sammála hv. þingmanni um að það þyrfti að skoða meira. Ég er þeirrar skoðunar að bíða eigi með ályktun Alþingis þangað til við erum búin að sjá hina hliðina í gegnum skýrslu Alþjóðamálastofnunar vegna þess að (Forseti hringir.) erindisbréfið sem skilgreindi umfang þeirrar skýrslu sem við ræðum hér, það var ansi skorið af hæstv. utanríkisráðherra.