143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[01:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv forseti. Ég tek undir það, þ.e. varðandi skýrsluna. Það er eitt af því sem ég hef velt upp í ræðu minni og svo í framhaldinu í andsvörum að mér hefur fundist — ég var nú lengi að finna reyndar samningsmarkmiðin og gagnrýni að samningurinn og markmiðin sem þar eru fram sett um vinnulag skýrslunnar og þær spurningar sem þar á að spyrja eru ekki undir málinu sem slíku, þ.e. öllum skýrslunum, þannig að það var mjög djúpt á því. Ég hef spurt hvort það sé þannig að það sé eitthvert pólitískt „agenda“ í skýrslunni. Án þess að ég sé að kasta rýrð á hana þá átti hún auðvitað að samrýmast stefnu ríkisstjórnarinnar, það kom fram. Þess vegna fannst mér það ekki rétt af hæstv. utanríkisráðherra að slá þá væntanlegu skýrslu, sem við vitum að er á leiðinni, út af borðinu með þeim rökum að það þyrfti ekki að ræða hana af því að hún væri pöntuð á ákveðnum forsendum.

Þegar ég hugsa til þess hvernig Evrópusambandið hefur tekið á kreppu í þeim löndum sem tilheyra sambandinu þá finnst mér það svolítið merkilegt að þeir sem leiða hér fjárlagagerð, harðir (Gripið fram í.) Heimssýnaraðilar, beita nákvæmlega sömu taktík og gert hefur verið í Evrópusambandinu. Það er mikill niðurskurður og sú hugmyndafræði sem hér er verið að beita af núverandi ríkisstjórn finnst mér passa alveg ótrúlega vel við það sem Evrópusambandið hefur verið að gera og það er eitt af því sem mér hugnast ekki við Evrópusambandið. En mér finnst það mjög merkilegt (Forseti hringir.) að þeim sem fara hér fyrir ríkisstjórninni hugnast ekki að ganga í Evrópusambandið en þeir beita sömu vinnubrögðum. (Forseti hringir.) Deilir hv. þingmaður þeirri skoðun með mér?