143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei farið til sjós en sóttist hins vegar einu sinni eftir því. Þá var mér sagt að það gengi ekki að hafa konur um borð vegna þess að þá kláraðist vatnið svo fljótt sem menn höfðu. Það var þannig þá en hefur vonandi eitthvað breyst síðan. Ég fékk hins vegar að þrífa skipin. Það var líka ánægjulegt og ágætlega greitt.

Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa spurt um hvenær fundi eigi að ljúka. Hér hafa verið alls konar heitstrengingar um það að við ætlum að reka fjölskylduvænna þing o.s.frv. Við sem hér erum í salnum eigum örugglega samanlagt vel á þriðja tug barna, hér er töluvert af fjölskyldufólki og ég hefði viljað að menn stæðu við eitthvað af þessu, þó ekki væri nema að gefa okkur einhverja hugmynd um hvernig þinghaldi skuli háttað í nótt og á morgun þannig að fólk geti að minnsta kosti gert ráðstafanir. Mér finnst það vera lágmark, virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. forseti (Forseti hringir.) segi eitthvað núna í þessari umræðu um áframhaldið.