143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[01:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það sem er í gangi er náttúrlega það að fundarstjóri, sem stýrir þessum fundi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, fyrir stjórnina, er að sjálfsögðu að teygja lopann, skapa svigrúm fyrir umræður sem geta gleypt allan þann tíma sem stjórnarandstaðan eða minni hlutinn hafa til að tefja mál. Hvers vegna er verið að tefja málið? Það er góð ástæða fyrir því, þeir eru að tefja þetta mál af því að stjórnin vill í dag slíta viðræðum, koma á dagskrá máli til um að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Það er það sem er í gangi, það er allt og sumt. Við höldum áfram hérna og tölum um þessi mál o.s.frv. en við blekkjum þjóðina ekkert með því. Þetta er það sem er í gangi núna. Og við skulum ekki gengisfella orðið ofbeldi, það á sér ekki stað neitt ofbeldi hérna í dag, það er ekkert ofbeldi. Menn eru að nota þær heimildir sem þeir hafa fengið (Forseti hringir.) til að taka ákvarðanir fyrir þjóðina en þjóðin á að fá að taka þær ákvarðanir, ekki þingið.