143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu sem átti að verða grundvöllur undir frekari ákvarðanatöku um aðildarviðræðuferlið við Evrópusambandið. Í þingsályktunartillögu, sem lögð hefur verið fram, um slit, er vitnað í skýrsluna og svo virðist vera sem helstu rökin fyrir slitum séu þau að ríkisstjórnin hafi áttað sig á því að aðildarviðræður við Evrópusambandið fælu ekki í sér að Ísland gengi í Evrópusambandið heldur virðast þær að þeirra mati eiga að snúast um að ESB gangi í Ísland og væntanlega helst efnahagssvæði Kaupfélags Skagfirðinga. En það er ekkert fjallað af neinni alvöru um þau mál sem helst hefur verið deilt um eða vafi þótt leika á um varðandi mögulega Evrópusambandsaðild Íslands.

Ég vil taka dæmi af fjórum málaflokkum. Það eru sjávarútvegur, landbúnaður, myntbandalagið um evruna og spurningin um stöðu fullveldis Íslands. Í skýrslunni er fjallað um öll þessi mál, kannski ekki nógu ítarlega og alls ekki um sum þeirra.

Varðandi landbúnaðinn, svo að við tökum hann sem dæmi, þá kemur til dæmis fram í skýrslunni að í opnunarviðmiði Evrópusambandsins hafi sérstaklega verið tekið fram að taka bæri tillit til sérstöðu íslensks landbúnaðar. Svo er vitnað í þær heimildir sem Svíar og Finnar hafa vegna legu landbúnaðarsvæða norðan 62. breiddargráðu en jafnframt talið að ekki sé um langtímaundanþágu að ræða. Það er mjög mikilvægt að þetta verði rætt í hv. utanríkismálanefnd enda er þetta undanþága sem verið hefur við lýði í 20 ár og eftir því sem ég best veit er ekkert útlit fyrir að þar sé að verða breyting á.

Varðandi sjávarútveginn er verið að segja frá nýrri stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum. Þar er farið ítarlega yfir markmið stefnunnar og þar er ekkert að sjá sem ætti að vera í andstöðu við fiskveiðistjórnarstefnu Íslands en þess ber að geta í þessari umræðu að við yrðum með aðild stærsta fiskveiðiþjóð Evrópusambandsins, bæði í raunstærðum og eins með 40% af útflutningstekjum okkar vegna sjávarútvegs. Þar eru fjölmörg álitaefni sem þarf að ræða en þar er jafnframt bent á að stefnt sé að meiri áhrifum nærsamfélagsins og jafnvel leiddar að því líkur að við gætum túlkast sem sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði. Mér finnst það liggja í augum uppi að nokkuð auðvelt yrði að ná því markmiði.

Um evruna þarf ég ekki mikinn tíma því að ekki er fjallað um hana í þessu riti, sem má teljast nokkuð merkilegt. Um fullveldið næ ég ekki að ræða en tekst vonandi að ræða aftur þegar nefndarálit um skýrsluna kemur hér inn í þingið.

Mér finnst skýrslan ágæt um margt. Hún ber þess merki að flýtt hefur verið til á endasprettinum en ég vil nefna dæmi um hluti sem þarf líka að fá betri skýringar á í utanríkismálanefnd eins og þá fullyrðingu varðandi fiskveiðistjórnarkerfið að nefna megi að eignarréttarkerfi í ætt við það sem tíðkist almennt í fiskveiðistjórn hér á landi þekkist víða í sambandinu. Ég kannast ekki við að eignarréttarkerfi ríki um aflaheimildir á Íslandi. Ég held að almennt sé fólk ekki sammála þessari fullyrðingu og ég vona að þetta sé undantekningartilfelli um rangfærslur í skýrslunni. En það er mjög alvarlegt ef þegar er búið að draga ályktanir af skýrslu sem fer svo rangt með og í andstöðu við landslög á Íslandi.