143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil einnig staldra við annað atriði en það sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. veikleika í skýrslunni að því er varðar umhverfismál. Það er sannarlega þannig að umhverfismálin eru í sífellt vaxandi mæli að verða stærstu utanríkismálin. Það er ekki endilega eitthvað sem við óskum okkur heldur miklu frekar það sem veruleikinn færir okkur í fangið. Það eru áhyggjuefni sem varða loftslagsvandann, hlýnun jarðar, fækkun tegundanna, súrnun sjávar o.s.frv. Það er tiltölulega veikt í þessum kafla og þessari skýrslu og mér finnst gríðarlega mikilvægt að dýpka það enn frekar vegna þess að samstarf okkar við nágrannaríki og við ríki heimsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. hefur ekki síst verið á þessum vettvangi og í raun og veru hefur mikilvægi þess samstarfs farið vaxandi.

Við höfum verið í samstarfi við Evrópusambandið um tiltekin mál eins og til að mynda loftslagsmálin. Við höfum auðvitað innleitt stóran hluta af löggjöf Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn en þessum tilteknu viðbótarsjónarmiðum sem varða miklu frekar heildstæð umhverfismál, heimsvísumálin, ef svo má segja, eins og loftslagsvandann, ekki þessi staðbundnu mál, eru ekki sérstaklega gerð skil í þessari skýrslu, þ.e. ekki með mjög greinandi hætti. Mér finnst það vera veikleiki í skýrslunni vegna þess að ef við ætlum að horfa til framtíðar varðandi það hvar Ísland ætlar að staðsetja sig (Forseti hringir.) þá er mjög mikilvægt að horfa til þeirrar framtíðarsýnar sem Evrópusambandið hefur í þessum tiltekna og mikilvæga málaflokki.