143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[01:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu. Mig langar til þess að spyrja út í eitt hugðarefni mitt varðandi Evrópusambandið sem hefur lítið verið fjallað um hér í þessari umræðu og kemur lítið við sögu í skýrslu Hagfræðistofnunar. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að mörg þau viðfangsefni sem heimsbyggðin glímir við sameiginlega, eins og t.d. hungursneyð, þó að ekki sé hún í Evrópu, hungursneyð í þróunarríkjum og ekki síst umhverfismál og mörg þau mál sem snerta þróunaraðstoð með ýmsum hætti, séu orðin það stór og erfið viðureignar að þau verði ekki leyst á vettvangi þjóðríkisins. Ég er þeirrar skoðunar að einungis með samstarfi frjálsra og sjálfstæðra þjóða í ríkjabandalagi á borð við Evrópusambandið sé hægt að grípa til nægilega umfangsmikilla og raunhæfra aðgerða til þess að takast á við þann vanda sem blasir víða við heimsbyggðinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í vöntun á því umfjöllunarefni í skýrslunni. Maður getur auðvitað haft margvíslegar skoðanir á því hvers vegna Íslendingar eiga erindi í Evrópusambandið. Ég get nefnt gjaldmiðilsmál, ég get nefnt þann lýðræðishalla sem er í því fólginn að vera hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, ég get líka talað um að við erum evrópsk menningarþjóð og eigu þess vegna samleið með Evrópusambandinu og öðrum Evrópuþjóðum í þeim efnum.

Mig langar að spyrja út í samstarf þjóða við að leysa sameiginleg vandamál heimsbyggðarinnar.