143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[01:56]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er einmitt eitt af því sem lítið hefur verið fjallað um í þeirri umræðu sem hefur farið fram hér og er gríðarlega mikilvægt viðfangsefni. Það er auðvitað svolítið fátækleg umræða sem fer fram eingöngu á forsendum þess hvað Íslendingar geta fengið út úr því að vera þátttakendur í Evrópusambandinu. Að sjálfsögðu eigum við að vera að skoða hvaða þýðingu það getur haft fyrir Ísland og þjóðir heims að beita sér sameiginlega í þeim viðfangsefnum sem blasa við heimsbyggðinni.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er held ég oft vanmetið hversu mikilvæg rödd Íslands er sem lítils eyríkis í miðju Atlantshafi með sína miklu sérstöðu. Við erum að mörgu leyti frábrugðin restinni af Evrópu þó að menning okkar sé auðvitað upprunnin þar og við séum Evrópubúar. Framlag okkar og rödd getur verið gríðarlega mikilvæg í því samhengi sem er innan Evrópusambandsins. Mér finnst það vera hluti af umræðunni sem fer allt of lítið fyrir. Á sama hátt og það er mikilvægt hér á Alþingi að raddir úr hinum mismunandi byggðum landsins fái að hljóma er mikilvægt að rödd Íslands heyrist á vettvangi Evrópusambandsins, að hún hafi áhrif á löggjöfina. Ein rödd getur skipt alveg gríðarlega miklu máli. Það þekkjum við úr umræðunni á Alþingi.