143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það afhjúpar kannski það hversu sérstök fundarstjórn forseta hefur verið í gegnum þessa umræðu alla að við höfum þráspurt um mál eins og hvað ætti að gera við skýrsluna, hversu löng umræðan eigi að vera o.s.frv., og ef við hefðum fengið greið svör jafnharðan og ef við hefðum verið virt viðlits af stjórnarforustunni og forustu þingsins hefði það væntanlega tekið skemmri tíma. En nú er svo komið að klukkan er að ganga þrjú, nefndarfundir hefjast kl. hálfníu í fyrramálið og það er komið að mér að flytja mína fyrstu ræðu í þessu máli. Ég spyr þingforseta hvort hann telji sóma að því að umræðan fari fram með þeim hætti að fyrsta ræða mín verði flutt á þriðja tímanum að nóttu í miðri viku.