143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefði getað orðið með allt öðrum hætti ef stjórnarmeirihlutinn hefði virt okkur svars og ef menn hefðu tekið í útrétta sáttarhönd sem við höfum aftur og aftur rétt fram. Til þess hefur enginn vilji verið. Ég lýsi enn ábyrgð á hendur stjórnarmeirihlutanum á því hvernig haldið er á þessu brýna hagsmunamáli.

Nú er hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að fara að halda sína fyrstu ræðu í málinu. Við höfum verið hér í nótt að ræða málið og ég gat hengt tjaldhæla á hæstv. utanríkisráðherra þannig að ég náði að hafa hann hér inni í nokkrar mínútur meðan ég hélt mína fimm mínútna ræðu, en full ástæða hefði verið til að kalla til ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem urðu að athlægi í sjónvarpsfréttum í kvöld. (Forseti hringir.) Við getum auðvitað farið í að gera það til að fá einhvern hljómgrunn í umræðuna. Það er hins vegar enginn bragur á þessari framgöngu af hálfu stjórnarmeirihlutans. (Forseti hringir.)Það er ekki eðlilegt að ætla formanni þingflokks Vinstri grænna að halda fyrstu ræðu sína í málinu um miðja nótt.