143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er orðið dálítið langdregið leikrit hérna, fullt endurtekninga og einkennist ávallt af því að við fáum engin svör við einföldum spurningum.

Nú skil ég mjög vel að forseti skyldi koma hingað nokkru fyrir miðnætti og segjast vilja sjá hverju fram yndi áfram allnokkra stund. Svo kom hann aftur og sagði að hann hefði ekki í hyggju að taka ný mál fyrir hér í nótt.

Nú hefur hæstv. forseti fengið að sjá hverju vindur fram allnokkra stund. Af því má að sjálfsögðu draga ályktanir. Það er ljóst að hér eru miklar umræður eftir og það er ekki boðlegt að ætla hv. þingflokksformanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að flytja fyrstu ræðu sína hér um miðja nótt. (Forseti hringir.) Það verður ekki einu sinni send út sjónvarpsútsending (Forseti hringir.) frá þessum fundi á morgun vegna þess að þingfundur hefst kl. 10.30. Það er því verið að taka af þingmanninum (Forseti hringir.) möguleika á að tala við þjóðina (Forseti hringir.) og koma upplýsingum (Forseti hringir.) á framfæri við þjóðina. (Forseti hringir.) Þetta er ekki í lagi.