143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmönnum um að þetta sé að verða svolítið dapurleg ráðstefna hérna. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir spurði hvort erfiðlega gengi að standa við fyrirheit og loforð sem ríkisstjórnarflokkar fóru fram með hérna fyrir kosningarnar og á það við akkúrat í því sem við erum að ræða núna, að viðræðum við ESB verður ekki slitið án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Þetta hérna er svar starfsmanns kosningaskrifstofu framsóknarmanna frá 25. febrúar þar sem hann svarar kjósanda sem segist ekki ætla að kjósa Framsóknarflokkinn nema hann fái skýr svör og óskar eftir skýrara svari en fyrra svar var. Þar segir: Sæll. Stefnan er einföld. Aðildarviðræðum við ESB verður ekki slitið án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.

Mig langar að inna (Forseti hringir.) hv. þingmenn og hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins eftir því (Forseti hringir.) hvort þeir beri þær sakir á starfsmann sinn að hafa ekki sagt satt.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að virða tímamörk.)