143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Óttarr Proppé var að tala um. Það er vissulega gaman að vera hérna í nótt, það er mikið af skemmtilegu fólki og við drekkum mikið kaffi og borðum mikið konfekt og allir eru í sykursjokki og komnir með svefngalsa.

Það væri þó skemmtilegt að hafa hugmynd um hvað fundurinn á að teygjast lengi. Meira að segja í malbikinu hafði maður einhverja hugmynd um það. Maður vissi þó alla vega að tonnin væru svona mörg sem átti að leggja út og hafði nokkurn veginn hugmynd um hvað vinnan mundi teygjast langt fram á kvöld, það er yfirleitt ekki unnið fram á nótt, ekki lengur, það var í gamla daga.

Þá er það spurning: Eigum við ekki að fara að setja í þingsköp einhvers konar tímamörk um hvernig skuli haga umræðum? Það setur ákveðin mörk á svona leikfimi, þetta er náttúrlega leikfimi sem er í gangi hérna. Stjórnarmeirihlutinn vil láta klára þessi mál, stjórnarminnihlutinn vill (Forseti hringir.) draga þau. Eigum við ekki að setja þetta í þingsköp?