143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[02:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið og um þróun mála innan sambandsins. Ég verð að segja að ég er eiginlega dálítið gáttuð yfir því að vera að hefja ræðu þegar klukkuna vantar 23 mínútur í þrjú að nóttu og hefði haldið að athugasemdir þær sem hér hafa verið bornar fram, og nokkuð vel rökstuddar, yrðu teknar til greina. En ég vænti þess þá að það verði sérstaklega rætt á vettvangi þingflokksformanna að forseta þyki það sæma að þingflokksformaður eins stjórnarandstöðuflokksins sé settur í þessa stöðu án þess að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna séu viðstaddir. Ég hlýt að gera athugasemdir við það.

Mig langar til að ræða undir þessari umræðu nokkur atriði. Við ræddum aðeins saman hér í andsvörum, ég og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, um styrkleika og veikleika þessarar skýrslu. En eins og hér hefur margoft komið fram er umræðan ekki svo einföld eftir að hér var varpað inn sprengju á föstudaginn var þar sem skýrslan var eiginlega rofin algjörlega úr öllu eðlilegu samhengi og kastljós umræðunnar barst yfir á þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sem var raunar svo dapurleg, illa unnin og flaustursleg á allan hátt að ekki varð við annað unað en að ráðherrann tæki greinargerðina til endurskoðunar. Af hverju var það? Það var vegna þess að hann taldi sér sæma að vega að heiðri þingmanna og ekki bara það heldur taldi hann sér sæmandi að dylgja um að þeir hefðu brotið gegn stjórnarskrá.

Sá veruleiki hefur ekki enn verið til lykta leiddur. Ráðherra hefur jú gert breytingar á greinargerðinni en ég hef ekki enn þá heyrt neitt sem nálgast afsökunarbeiðni, hvorki í framsöguhætti, viðtengingarhætti, þáskildagatíð eða núskildagatíð, þáliðinni núframtíð, eða hvað það er, sem mark er á takandi. Það hefur engin atlaga verið gerð að slíku. Og ég tel að það liggi í loftinu að að það sé ógert í þessari umræðu.

Í kjölfarið á framlagningu þingsályktunartillögu hæstv. ráðherra hefur undiraldan í samfélaginu nokkuð þyngst. Hún hefur þyngst í þá veru að almenningur gerir í sífellt ríkara mæli kröfu um að fá að koma að málinu. Undirskriftasafnanir hafa leitt í ljós gríðarlega mikinn vilja og ekki bara nokkurra hundruða heldur tugþúsunda Íslendinga á meiri hraða en við höfum áður séð þegar undirskriftasafnanir eru annars vegar og fjöldi fólks, í þúsundavís, safnast hér á Austurvöll dag eftir dag.

Af hverju gerist þetta? Það gerist vegna þess að fólki er misboðið. Og er því misboðið af því að það sé endilega svo ægilega miklir aðildarsinnar? Jú, einhver hluti. En eins og fram hefur komið í skoðanakönnunum um nokkurt árabil er gríðarlegur fjöldi Íslendinga þeirrar skoðunar að ekki verði komist að niðurstöðu um þetta mál öðruvísi en með fullnægjandi upplýsingum um það hvað aðild að Evrópusambandinu feli í sér.

Þessi veruleiki er veruleiki sem við sem stjórnmálafólk verðum að hlusta eftir. Við verðum að hlusta eftir þessu. Þess vegna er það verkefni sem við blasir núna, og ég skora á hæstv. ríkisstjórn og stjórnarþingmenn að hugsa það nú í einlægni — viðfangsefnið er ekki að koma sínum skoðunum í gegn, klára sína afstöðu með meirihlutaafli, af því að hér er ekki um að ræða slíkt verkefni. Hér er um að ræða verkefni sem er í mínum huga fyrst og fremst lýðræðisverkefni. Og hvað þýðir lýðræðisverkefni? Það þýðir að það er sett á okkar herðar að freista þess að ná utan um öll sjónarmið eða eins mörg sjónarmið og við getum og ná utan um ferlið þannig að málið verði til lykta leitt á forsendum þjóðarinnar sjálfrar.

Þetta er ekkert einfalt. Einhverjir hafa kallað það ómöguleika að eiga á hættu að niðurstaðan verði önnur en þeirra pólitíska afstaða segir til um. En ég er svo innilega ósammála þeirri hugsun í stjórnmálum almennt að við kærum okkur ekki um rödd þjóðarinnar nema hún sé okkur að skapi hverju sinni. Það er áskorun fyrir okkur sem erum í stjórnmálum að taka við keflinu frá þjóðinni þegar hún hefur jafnvel sagt annað en það sem stendur hjarta okkar næst, en það er um leið það umboð sem okkur er falið. Fulltrúalýðræðið nefnilega snýst líka um að taka við umboðinu af auðmýkt og leiða mál til lykta í nafni þeirra sem atkvæðin greiða, og við megum ekki gleyma því. Við megum ekki gleyma því að það er ekki gott ef það er þannig að um leið og við förum hér inn í þingsalinn sleppum við hendinni af því hvaðan við sóttum okkar umboð, að þá sleppum við hendinni af því að hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, er ekki bara utanríkisráðherra Framsóknarflokksins heldur líka utanríkisráðherra allra hinna. Hann er utanríkisráðherra ríkisstjórnar Íslands sem hefur það verkefni með höndum að halda um völdin af trúmennsku gagnvart þjóðinni allri.

Það er auðvitað freistandi að fara í slagsmálagírinn og gera þetta með afli, en ég hef trú á því að hægt sé að nálgast þetta með öðrum hætti. Það eru kostir og gallar á þessari skýrslu eins og hér hefur komið fram. Það eru líka kostir og gallar við Evrópusambandið. Ýmsir gallar Evrópusambandsins verða ekki máðir út með góðum samningi og ýmsir kostir þess verða ekki betri heldur með góðum samningi. Þess vegna er hluti af viðfangsefninu þetta með samninginn, en annar hluti af því er afstaðan sem við höfum til ríkjasambandsins, þ.e. til að vinna saman á þeim grunni sem þar er gert. Skýrsla sem þessi getur því aldrei ein og sér verið grundvöllur ákvörðunartöku en hún hjálpar til við að varpa ljósi á einstaka þætti.

Það eru gríðarlegir kostir við Evrópusambandið. Þeir hafa verið dregnir fram hér í umræðunni og Samfylkingin hefur verið drjúg við að halda þeim kostum fram. En það eru líka gríðarlegir gallar við það. Gallarnir eru að sumu leyti stærðin, að sumu leyti lýðræðishallinn, fjarlægðin frá valdinu. Það er líka umhugsunarefni sem við horfumst í augu við sem eru stóru viðfangsefni 21. aldarinnar, fátæktin í heiminum, stóru umhverfisvandamálin, loftslagsmálin, súrnun sjávar, mengun sjávar, fækkun tegundanna á hverjum einasta degi.

Hvernig verja Íslendingar best þessa hagsmuni, gera þeir það innan eða utan Evrópusambandsins? Það eru kostir við EES-löggjöfina en það eru líka gallar, eins og við höfum oft rætt hér. Er þessum spurningum svarað? Ég sjálf hef komist að þeirri niðurstöðu fyrir mína parta og við flest í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði en þó alls ekki öll — það er mikil einföldun að halda því fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé einsleit í þessu efni frekar en nokkur annar flokkur — að Evrópusambandið sé ekki góður kostur fyrir Ísland. En ég hef líka komist að þeirri niðurstöðu fyrir mig að það sé nauðsynlegt að þjóðin fái sjálf aðkomu að þessari spurningu. Og það er enginn pólitískur ómöguleiki í því í mínum huga að hafa þessa afstöðu og tefla henni fram af heilindum í hverju skrefi, treysta því að hægt sé að vera pólitískur, hafa heitar spurningar og heit svör og heitt hjarta, en að vera um leið faglegur og trúr því að ferlið þurfi að vera gagnsætt, að það þurfi að vera heiðarlegt, að það þurfi að vera hreinskiptið. Ég tel að þessi sjónarmið séu vel samrýmanleg og þarna sé enginn pólitískur ómöguleiki á ferð.

Ég hef áhyggjur af því þegar leiðtogar stjórnarflokkanna tala með þeim hætti, og sérstaklega hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að þessi sjónarmið verði ekki leidd saman, vegna þess að ég held að það sé vont fyrir stjórnmálin að draga upp svo einfalda mynd að segja: Ég get ekki farið með umboðið öðruvísi en að þið séuð sammála mér. Í svona stóru máli finnst mér viðfangsefni okkar vera flóknara en þetta.

Það eru stórar spurningar sem eru hér undir líka sem eru spurningarnar um fullveldið og sjálfstæði þjóðarinnar. Fullveldisumræðan hefur heilmikið verið uppi á borðinu í tengslum við EES-samninginn og hvernig hann er í sífellt ríkari mæli að takast á við stjórnarskrá Íslands og hvernig við ætlum að vinna úr því, hvað við ætlum að gera með það. Sú umræða verður ekki rofin úr samhengi við þá umræðu sem við erum með hér.

Það leiðir okkur aftur til þeirrar spurningar — sem ég er sannfærð um að er afar mikilvæg fyrir okkur sem tökumst á við stjórnmál á hverjum tíma, af því að stjórnmál snúast um völd og áhrif og lýðræðislegt umboð — að hve miklu leyti almenningur hefur í raun aðgang að valdi í gegnum kosningar. Að hve miklu leyti er það svo? Það er gríðarlega mikið vald sem er dreift víða um samfélagið í gegnum allt aðrar stofnanir en hinar lýðræðislegu, til að mynda í gegnum fjármagn, eignir, auð, í gegnum Samtök atvinnulífsins, sem hafa gríðarlega mikil áhrif í samfélaginu og sterka stöðu; einstakir armar atvinnulífsins. Við sjáum að LÍÚ hefur gríðarlega sterka stöðu, sterka aðkomu að heilum fjölmiðli og sterka stöðu akkúrat í þessu efni sem hér er dregið fram, því að LÍÚ er eina aðildarfélag, sýnist mér, Samtaka atvinnulífsins sem beinlínis er sammála hæstv. utanríkisráðherra í þessari tillögu.

Það liggur líka vald í alþjóðlegum samningum og það er heldur ekkert nýtt, við verðum að horfa á það líka. Það er ekki bara EES-samningurinn. Það er fjöldinn allur af samningum, stórum og smáum, sem í einhverjum skilningi afsalar okkur valdi og afsalar okkur ákvarðanatöku, þar sem við verðum að segja: Nei, ég er bundin þessum tiltekna samningi og ég get ekki tekið afstöðu sem stríðir gegn honum. Þetta myndar því allt saman net og samfellu valds og áhrifa í samfélaginu, og þetta verðum við að ræða saman.

Ég vonast til þess að þegar við förum svo að ræða tillögurnar, með einhverjum þeim hætti sem sómi er að, verði þessir þættir undir. Ég hef alltaf svolitlar áhyggjur af því þegar við erum að ræða Evrópusambandsmál að mér finnst umræðan verða of þröng. Mér finnst hún stundum snúast bara um að það séu tveir kostir og það sé fullkomlega fullkomið eða fullkomlega hræðilegt. En það er ekkert fyrirbæri hér á jörð sem hægt er að afgreiða með svo einföldum hætti.