143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[02:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru margar goðsagnirnar sem þingmenn stjórnarmeirihlutans og talsmenn hans innan Heimssýnar og víðar hafa sett á flot um þetta ferli allt saman. Ein kenningin er sú, til viðbótar við hin meintu óheilindi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að ekki sé hægt að kíkja í pakkann, það sé engin leið að sækja um og fá að vita hvað er í boði.

Nú hef ég persónulega rakið fyrir fjöldamörgum ráðamönnum Evrópusambandsríkja og forustumönnum Evrópusambandsins stöðuna á Íslandi. Ég hef rakið fyrir þeim afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ég hef rakið fyrir þeim flokkssamþykktir sem að baki liggja og aðferðafræðina sem ríkisstjórnin lagði upp með, og allir viðurkenna einum rómi að ekkert sé athugavert við þennan málatilbúnað. Ég hef útskýrt fyrir þeim að þingmenn úr öllum flokkum greiddu atkvæði með aðildarumsókninni og það nýtur almenns skilnings og virðingar meðal viðsemjenda okkar. Á fundi með sameiginlegri þingmannanefnd með Evrópuþinginu í júnímánuði sl., (Forseti hringir.) þar sem hæstv. forsætisráðherra reyndi að breiða þennan óhróður út við erlenda viðmælendur, var staðfest enn og aftur (Forseti hringir.) af hálfu hinna erlendu þingmanna að ekkert væri (Forseti hringir.) óeðlilegt við þennan málatilbúnað.