143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[03:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef svo sem engu við þetta að bæta. Ég held að því miður sé forusta ríkisstjórnarinnar ekki í réttum takti í þessu efni frekar en öðrum. Það hjálpar okkur sem aðhyllumst ljóðrænu í pólitískri umræðu að líkja þeim við íþróttamenn eða eitthvað. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra líkir gjarnan ýmsu sem hann er að gera eða ekki að gera við að mála vegg sem er ekkert sérstaklega ljóðrænt. En það breytir því ekki hvað þetta er vandræðalegt fyrir Ísland og orðsporið sem við erum smám saman að byggja upp gagnvart umheiminum. Það er mikið umhugsunarefni og þetta er partur af því.

Ef forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er farinn að teikna upp einhverjar rómantískar senur gagnvart Rússum akkúrat núna þegar þetta stendur yfir hef ég áhyggjur af því hvað sé að teiknast upp í samskiptum Íslands (Forseti hringir.) og umheimsins þegar þetta er orðin áferðin á þeirri hlið sem við snúum að veröldinni.