143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í upphafi þingfundar fáum við dagskrána fyrir fimmtudaginn 27. febrúar 2014 kl. 10.30 árdegis. Ég tek eftir því að röðunin á málum á dagskrá er heldur undarleg, finnst mér. Fyrst er óundirbúinn fyrirspurnatími, síðan eru aðildarviðræður við Evrópusambandið, skýrslan sem við höfum verið að ræða, þar á eftir kemur umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka. Þar á eftir spurningin um þjóðaratkvæðagreiðsluna og þar á eftir spurningin um formlegt hlé.

Ég sé ekki betur en að röðunin eigi helst að vera þveröfug ef það á raunverulega að ræða þessi mál. Ég lít svo á að þessi tvö mál, nr. 4 og 5, séu ekki raunverulega á dagskrá nema mál nr. 3 komi síðast af þessum þremur eða þá að þau séu rædd samtímis.