143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við þurfum ekki að hafa um það mörg orð hversu mikið deilumál möguleg aðild að Evrópusambandinu er. Þetta varðar grundvallarnálgun okkar á pólitík, lífsviðhorf og skoðanir og hefur verið deilumál í áratugi. Ég held að það verði af þessu tilefni núna, þegar ESB-málið er orðið svona stórt hér í þinginu, að leita að efnislegum sáttafarvegi.

Ég kem hér upp til að freista þess að greiða fyrir þingstörfum með því að lýsa því yfir að við þingmenn Bjartrar framtíðar erum reiðubúin að fallast á þá nálgun á Evrópusambandsmálin sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Við lítum á það sem sáttaboð af okkar hálfu að einfaldlega verði litið svo á að hlé verði gert á viðræðunum við ESB, það sé afstaða ríkisstjórnarinnar og að ríkisstjórnin haldi ekki áfram viðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við erum að teygja okkur ansi langt í þessu efni, við erum flokkur sem hefur lagt áherslu á að klára viðræður við Evrópusambandið (Forseti hringir.) og leggja samninginn í dóm þjóðarinnar. Hér er sáttaboð af okkar hálfu, það er efnislega mjög samhljóða tillögu Vinstri grænna og við getum afgreitt þetta mál með efnislegri sátt núna.