143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hvet hv. þingmenn til að greiða fyrir þingstörfum þannig að við getum tekið til við dagskrána. Hér eru 29 mál á dagskrá, mörg mjög mikilvæg, og rétt af okkur að halda áfram með dagskrána.

Ég átta mig hins vegar ekki alveg á forgangsröðun stjórnarandstöðunnar sem virðist klofin til þess atriðis hvaða mál eigi að taka fyrst á dagskrá. Samfylkingin og þingflokksformaður Samfylkingarinnar er greinilega búinn að taka nýja línu miðað við gærdaginn og leggur til að 18. dagskrármálið verði þá 2. dagskrármálið, eftir því sem mér skildist, sem er þvert á það sem flokksmenn hans héldu fram í gær.

Varðandi þær athugasemdir að það sé eitthvert nýmæli að menn standi hér og tali á næturnar minni ég einfaldlega á nokkur mál á síðasta kjörtímabili þar sem við stóðum margar nætur að ræða mál. Þar á meðal var til dæmis Icesave-málið sem ég tel að hafi verið afskaplega mikilvægt mál með tilliti til hagsmuna þjóðarinnar. Menn skulu aðeins gæta sín á því hvað þeir segja hér (Forseti hringir.) með tilliti til þeirra eigin verka á síðasta kjörtímabili.