143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki betur en að ég hafi verið mjög gætin í orðavali. Ég tók fram að hér væru stundum næturfundir en að fyrir því þyrftu að vera rök og að ég sæi ekki þau rök í þessu tilfelli. Þannig þurfum við auðvitað að nálgast málið.

Síðan verð ég líka að segja að það að vísa ávallt til fortíðar, sem bæði var gert á síðasta kjörtímabili og núna, kemur í veg fyrir að við breytum vinnubrögðunum, svo það sé sagt. Það sem ég kvaddi mér þó hljóðs til að segja var að mér fannst það mjög mikilvægt innlegg sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom hér með. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum okkar tillögu fram, hún lá ekki fyrir í byrjun vikunnar, hún er viðbrögð við þeirri tillögu sem stjórnarflokkarnir leggja fram, tilraun til að skapa einhverja sáttaleið í flóknu máli og horfast í augu við stefnu þeirra stjórnarflokka sem hér eru en standa um leið við þau loforð sem allir flokkar gáfu um að þjóðin fengi að segja sitt um þetta mál.

Mér finnst mjög mikilvægt að við færum okkur einmitt inn í efnislega umræðu um hvernig eigi að lenda þessu stóra máli því að, virðulegi forseti, það er ekki (Forseti hringir.) að fara neitt úr pólitískri umræðu. Það að reyna að þvinga það út af borðinu með þeim hætti sem hér er gert mun heldur ekki færa það út úr pólitískri umræðu. Hv. þingmenn stjórnarliðsins verða að horfast í augu við það.