143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef við viljum í alvöru breyta vinnubrögðunum hér þurfum við að breyta mjög mörgu, m.a. orðræðunni. Ef menn eru í fullri alvöru að tala um það sem ögrun að koma með blað í ræðupúltið eru þeir ekki að lýsa raunveruleikanum.

Ég hef verið þingmaður frá árinu 2003. Það hefur margoft verið sett blað í mitt ræðupúlt, það er engin ögrun, það hefur verið gert bæði af samherjum og andstæðingum í pólitík. Mönnum er fullfrjálst að halda áfram að setja blöð í ræðupúltið á meðan ég held ræðu, ef menn hafa einhverjar efasemdir um það. Ég hef aldrei haft hugmyndaflug í að halda að það sé ögrun.

Við munum ekki stýra því hvort rætt verði um ESB-mál í þjóðfélaginu. Þó að við mundum slíta viðræðunum á morgun fara þau ekkert út af dagskránni ef þjóðin og hagsmunaaðilar hafa áhuga á því að halda þeim á dagskrá. Það er bara þannig.

Svo er það spurningin: Eigum við að ræða þessa (Forseti hringir.) skýrslu efnislega? Ég held að það væri afskaplega mikilvægt að við mundum (Forseti hringir.) taka upplýsandi umræðu um efni skýrslunnar. Það væri góð byrjun.