143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[11:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka sáttaboðið og ég vil líka nota tækifærið og benda á að það er algjörlega ný staða í stjórnmálum og umræðum um Evrópusambandið í þjóðfélaginu, í þessum þingsal, að fram sé komin tillaga um að slíta viðræðunum. Enginn stjórnmálaflokkur sagði það upphátt fyrir síðustu kosningar. Tillögur voru meira að segja lagðar fyrir á flokksþingum Framsóknarflokksins, og að ég held Sjálfstæðisflokksins, þori þó ekki að fara með það, um að slíta viðræðum. Þær voru felldar.

Þetta er ný staða.

Við erum hér, þingflokkur Bjartrar framtíðar, algjörlega þeirrar skoðunar og höfum alltaf verið, að þessar viðræður eigi að klára og samninginn eigi að leggja fyrir dóm þjóðarinnar. Það hefur verið okkar afstaða. Við erum núna að segja: Horfumst í augu við ósættið í þessu máli. Veljum sáttina, það verður aldrei friður um að slíta. Skilgreinum þetta hlé, (Forseti hringir.) skilgreinum farveg málsins, kynnum skýrslu Hagfræðistofnunar almenningi, ræðum hana, ræðum málið efnislega, (Forseti hringir.) búum til farveg grundvallaðan á stjórnarsáttmálanum sjálfum. Sáttaleiðin er fyrir hendi.