143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

staða ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[11:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Forseti. Þó að mikilvægt sé að ræða Evrópusambandið í þessum sal eru líka önnur stór mál sem varða daglegt líf Íslendinga og ekki síst málið sem ég ætla að nefna, sem varðar ekki hvað síst kannski daglegt líf ungra Íslendinga, þ.e. húsnæðismálin. Ég veit að hæstv. félagsmálaráðherra deilir með mér áhyggjum af stöðu húsnæðismála hjá ungu fólki núna sem sér fram á allt aðra framtíð í þeim efnum en ungt fólk fyrir áratug.

Ég fór yfir það í ræðu minni um títtnefnt Evrópusamband að blikur eru á lofti þar um þróun í félagslegum málum, sem því miður er ekki tekið á í skýrslu utanríkisráðherra, sem lúta einmitt að stöðu ungs fólks í Evrópu, atvinnumálum og húsnæðismálum. Þar horfa menn fram á að ungt fólk, ungt fjölskyldufólk sem komið er með börn, er í þeirri stöðu að það verður að flytja inn á foreldra sína. Staðan er sú, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýjar rannsóknir sýna að flestir vilja búa, að þar er ungt fólk í sömu stöðu, því miður, þar sem leiguverð er nánast óviðráðanlegt og húsnæðisverð, sérstaklega í sumum hverfum borgarinnar, hefur farið hækkandi. Ég veit að hæstv. félagsmálaráðherra hefur efnt til stefnumótunar og víðtæks samráðs um húsnæðismálin. Þetta er náttúrlega mjög brýnt mál.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig staðan er á þeirri vinnu. Hvenær munum við sjá einhverjar tillögur koma frá samráðshópnum? Hvernig verður samráði háttað um þær tillögur? Ég held að þetta sé gríðarlega brýnt mál ef við viljum að Ísland haldi áfram að vera eftirsóknarverður staður fyrir ungt fólk að búa á. Gríðarlega mikilvægt er að það fólk geti fundið sér húsnæði án þess að yfirskuldsetja sig, því að það er auðvitað erfið staða fyrir ungt fólk sem oft er með námslán á bakinu, að eiga hreinlega við óviðráðanlega leigu eins og staðan er í dag.

Ég held að ekki verði komist í gegnum þessi mál án þess að til komi mjög markvissar aðgerðir, bæði ríkis og sveitarfélaga. Mig langar að inna hæstv. félagsmálaráðherra eftir því sem ég spurði um (Forseti hringir.) og sýn hennar á þessi mál eftir þá vinnu sem fram hefur farið.