143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

staða ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[11:18]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að reyna að vinna þetta eins hratt og hægt er. Það er hins vegar alveg ljóst að vinnan hefur dregist frá því sem ályktað var um í ályktun Alþingis, meðal annars vegna þess að ég vildi aukið samráð og líka vegna þess að í niðurstöðum eða tillögum þeirra starfshópa sem hafa þegar skilað af sér, skuldaleiðréttingarhópurinn og verðtryggingarhópurinn, hafa menn verið að vísa ákveðnum hugmyndum og tillögum til verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Þannig að segja má að verkefnin hafi opnast.

Við gerum okkur einnig mjög vel grein fyrir að þetta er ekki bara eitthvað sem við getum tekið ákvörðun um á Íslandi, heldur erum við skuldbundin samkvæmt EES-samningnum. Ákveðnar kröfur hafa verið gerðar og hafa þegar verið lögfestar hér á Alþingi varðandi breytingar á Íbúðalánasjóði.

Ég vil bara ítreka það sem ég sagði. Ég sé ekki fyrir mér að það sé einhver ein heildarlausn sem henti öllum, heldur þarf að huga að því að við erum með mjög ólíkar aðstæður hjá heimilum landsins. Þau eru nálægt 120 þúsund. Við þurfum (Forseti hringir.) að tryggja að hvert einasta (Forseti hringir.) búi við öryggi, þetta val, (Forseti hringir.) þess vegna þurfum við að bjóða upp á ólíkar lausnir.