143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna.

[11:19]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Í fréttum RÚV í gær voru rifjuð upp loforð þriggja hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins um að bera áframhald viðræðnanna við ESB undir þjóðina. Hv. mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, brást við fréttinni, svaraði fréttamanni og áskildi sér rétt til þess að skipta um skoðun. Þá skil ég hann þannig að hann hafi skipt um skoðun á því að treysta þjóðinni fyrir ákvörðuninni. Hann skipti um skoðun því staðreyndir hefðu breyst. Ég spyr mig hvaða staðreyndir það séu. Hvaða staðreyndum er ESB búið að breyta? Er það kannski frekar staðan sem hefur breyst, sem er ásköpuð staða stjórnarflokkanna sem vildu fara í samstarf?

Ég kem hér upp til þess að inna hæstv. innanríkisráðherra um afstöðu hennar því við höfum lítið heyrt frá henni, hún hefur verið að sinna verkefnum annars staðar. Við höfum lítið heyrt frá henni um afstöðu hennar í þessu máli, en eins og rifjað var upp í fréttinni í gær sagði hún sjálf, með leyfi forseta: „Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það að þjóðin fær að ákveða það hvort það verði gengið lengra í þessu máli.“

Hvað finnst hæstv. ráðherra um þá stöðu sem upp er komin? Er í lagi að afgreiða málið á þennan máta? Finnst hæstv. ráðherra það í lagi? Væri ekki nær að leita sátta?