143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

kosningaloforð og efndir.

[11:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stjarnfræðileg svik formanns Sjálfstæðisflokksins í einhverju stærsta kosningaloforði íslenskra stjórnarsögu, eins og Þorsteinn Pálsson kallaði það, koma auðvitað jafnvel okkur andstæðingum Sjálfstæðisflokksins á óvart. Oft hafa menn vegna fjárskorts eða vegna þess að þeir hafi ekki vald á málinu eða vegna þess að þeir eru neyddir til málamiðlana við gerð stjórnarsáttmála eða vegna þess að þeir meintu eitthvað annað, gengið á bak orða sinna. En að allir ráðherrar eins stjórnmálaflokks svíki ótilneyddir innan við ári frá því að þeir allir gefa sömu loforðin, vekur spurningar um gildi yfirlýsinga ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Eigum við Íslendingar að skilja það þannig að þegar Illugi Gunnarsson, hæstv. menntamálaráðherra, lofar þjóðinni einhverju áskilji hann sér rétt til þess að svíkja það ef honum býður svo við að horfa hvenær sem er eftir það?

Hvernig eigum við eftir þessa framgöngu að geta tekið mark á orðum ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Íslands?

Er treystandi yfirlýsingum ráðherra sem lýsir því yfir á opinberum vettvangi að hann áskilji sér rétt til þess að ganga frá loforðum sínum hvenær sem er?

Ekkert hefur breyst í málinu frá því að loforðin voru gefin annað en það að á grundvelli þeirra loforða hafa þessir tveir flokkar fengið brautargengi í íslenskum stjórnmálum.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Ef svona er um munnleg loforð ráðherrans, er þá hægt að treysta skriflegum yfirlýsingum ráðherrans? Er hægt að treysta viljayfirlýsingum ráðherrans? Eða hvernig á að vera hægt að treysta orðum ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem lýsir því yfir að hann áskilji sér rétt til þess að ganga frá loforðum sínum hvenær sem honum býður við að horfa?