143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

kosningaloforð og efndir.

[11:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Enn og aftur. Það sem skiptir hér mestu máli eru hagsmunir Íslands. Niðurstaða okkar eftir að hafa farið yfir skýrslu Hagfræðistofnunar og þá reynslu sem fengin er af hinu langa umsóknarferli og mat á stöðu Íslands og hagsmunum þjóðarinnar, bæði í bráð og lengd, er þessi:

Ég reikna með að til dæmis þeir hv. þingmenn sem ég vitna til, orða þeirra, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, ætli hann hafi ekki séð það fyrir sér að það væri ógerningur að menn sem væru á móti því að ganga í Evrópusambandið, menn sem hefðu ekki trú á samningum við ESB færu síðan og skrifuðu undir slíka samninga, ætluðust til þess að hinn samningsaðilinn færi fyrir 28 þjóðríki og mæltist til þess að samningurinn yrði samþykktur og færu um leið sjálfir til síns heimalands og segðu: Við viljum að þetta sé fellt, það sem við erum nýbúnir að skrifa undir. Sjá menn það fyrir sér?

Vitanlega er það svo að það er það sem skiptir máli hér. Þetta hefur verið skýrt út margsinnis. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hv. þm. Helgi Hjörvar mun ekki sætta sig við þær útskýringar. Ég get lítið gert að því. En þetta eru rökin og þau hafa verið borin fram. (Forseti hringir.) Það er síðan þannig að það verður auðvitað þjóðin sem að lokum verður spurð um það hvort menn njóti trausts (Forseti hringir.) eða ekki.