143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

stefnumótun í málefnum framhaldsskólans.

[11:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hv. fyrirspyrjanda tækifæri, þegar hv. þingmaður kemur hér upp í annað sinn, að nefna dæmi um það þar sem ég hef talað um breytingar á námsfyrirkomulagi á framhaldsskóla grundvallaðar á því að spara eigi peninga eða fjármuni. Ég vil gjarnan fá það dæmi úr því hv. þingmaður segist aldrei hafa heyrt neitt annað en þá nálgun. Ég hef lagt þetta upp með allt öðrum hætti. Ég hef bent á að Ísland er ein þjóða innan OECD þar sem tekur 14 ár að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám. Alls staðar annars staðar tekur það 12 eða 13 ár.

Ég hef líka bent á að það eru augljóslega tækifæri og nauðsyn á umbótum í skólakerfinu þegar horft er t.d. til þess hversu stór hluti nemenda lýkur námi á tilsettum tíma. Einungis 44% af nemendum okkar ljúka námi úr framhaldsskóla á tilsettum tíma og sitjum við þar algjörlega á botninum í samanburði við aðrar þjóðir. Þessu þarf að breyta, virðulegi forseti. Með öðrum orðum, við þurfum að bæta og efla skólakerfið okkar.

Hvað varðar samráð um þessar breytingar var ég nú síðast fyrir tveimur eða þremur dögum á fundi með öllum skólameisturum framhaldsskólanna þar sem ég reifaði og fór yfir nákvæmlega mínar hugmyndir um breytingar. Það var ekki bara þeir sem voru staddir á þeim fundi heldur var þessu útvarpað eða sjónvarpað út á land þar sem skólameistarar sem ekki áttu heimangengt gátu fylgst með umræðunni. Ég hef líka átt fund með forustumönnum KÍ. Ég hef átt fund með forustumönnum sveitarfélaga, með forustumönnum úr ranni nemendafélaganna og kynnt þetta fyrir þeim.

Virðulegi forseti. Ég mun innan skamms fara hringferð um landið til að kynna þessar hugmyndir og síðan mundi ég áframhaldinu af því vilja eiga hið besta samstarf um framkvæmdaáætlun byggða á þeim. Aðalatriðið er að horfast í augu við að það eru tækifæri til að gera betur. Og það sem Ríkisendurskoðun segir svo skýrt er að nauðsynlegt er að horfa til breytinga á skólakerfinu. Það er ekki tilgangur minn og ekki mín nálgun að gera það til að spara fjármuni heldur til að gera (Forseti hringir.) kerfið betra. En það vill þannig til (Forseti hringir.) að gangi þetta eftir munu sparast nokkrir fjármunir. Ég vil gjarnan nota (Forseti hringir.) í það minnsta hluta þeirra til þess að bæta kjör kennara, enda veitir ekki af, virðulegi forseti.