143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

stefnumótun í málefnum framhaldsskólans.

[11:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem voru góð og kannski fyrst og fremst sá tónn sem tók af allan vafa um þá sýn sem hæstv. ráðherra hefur á samráð. Hann segir hér frá fundi með skólameisturum og fundi með kennurum, fundi með fleiri aðilum út um land og áformar enn frekari slíka fundi. Og hvað er gert á þeim fundum? Hvað stendur til að gera á þeim? Ráðherra kynnir sínar hugmyndir.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, með fullri virðingu fyrir hæstv. ráðherra, að þetta er viðfangsefni þar sem ráðherrann verður að leggja við hlustir sjálfur og hlusta á það sem er að gerast í framhaldsskólunum sjálfum því þar er reynslan og þar er þekkingin og upplýsingarnar sem hæstv. ráðherra hefði gott af að tileinka sér og hlusta á; kröfuna um að kerfisbreytingar á hvaða stigi sem þær eru snúist alltaf um gæði (Forseti hringir.) og inntak en ekki um skólastigið sem rekstrareiningu.